Ákall til félagsmanna og boðun framhaldsaðalfundar

Sæl öll og sumarkveðjur þó blautt sé og kalt hér sunnan til á landinu (ennþá!).

Aðalfundur félagsins var haldinn að Hótel Glym þann 22. apríl s.l. Því miður hefur ekki gefist tækifæri til að fjalla um aðalfundinn og ákvarðanir hans fyrr en núna vegna anna og sumarleyfa sem eru byrjuð.

Þessi póstur er ákall til ykkar allra og beiðni um að íhuga vel hver næstu skref verða í starfssemi félagsins en lítið hefur komið út úr beiðni til félagsmanna um að stíga upp og aðstoða við stjórn og starfssemi félagsins.

Kallað var eftir framboðum til stjórnar og til formanns félagins en 2 stjórnarmenn stíga út úr stjórn og formaður gefur ekki kost á sér áfram til formanns. Þá er ljóst að ritstjóri Bútasaumsblaðsins getur ekki staðið ein að ritun blaðsins og gagnaöflun.

Kallað var eftir aðstoð við hin ýmsu verkefni svo sem: 

    ·        Framboði til formanns

    ·        Framboðum til stjórnar

    ·        Framboðum í ritnefnd

    ·        Framboðum í sýninganefnd

    ·        Framboðum í fræðslunefnd

    ·        Framboðum í ferðanefnd – fram kom eitt framboð.

    ·        Framboðum í kaffinefnd

Einn félagi bauð sig fram til starfa í einni nefnd af fimm og engin bauð sig fram til stjórnar eða formanns.

Búast má við að félagið verði óstarfhæft ef ekki er geta, áhugi eða tími hjá félagsmönnum til að sinna nauðsynlegum félagsstörfum.

Á aðalfundi buðu sig fram Svala Stefánsdóttir og Sigríður Paulsen í kjörnefnd og hafa þær fengið í lið með sér Ragnheiði Björnsdóttur.

Aðalfundargerð er hér neðar í póstinum.

Aðeins um félagsmenn og endurnýjun félaga.

Mjög lítil nýliðun er í félaginu og er það miður því smám saman dregur út þrótti og hætt við að félagið deyi  út ef ekki bætast inn nýjir (og gjarnan yngri) félagar.

Tæp 13%  félagsmanna af 301 félaga eru 59 ára og yngri. Fimm af þessum konum eru nú þegar í stjórn.

Af þeim 34 félögum sem eru yngri en 60 ára eru aðeins 13 á höfuðborgarsvæðinu þar sem meginstarfssemin á sér stað (fundarstaður). Restin er á landsbyggðinni.

2,5% félagsmanna, eða aðeins 8 félagar eru undir fimmtugu.

41% félaga 70-79 ára.

45% félaga eru 80 ára og eldri

Af þessarri aldurskiptingu má auðveldlega ráða að sárlega vantar nýliðun og yngra fólk í félagsskapinn.  Við vitum öll að það er yngra fólk að sauma og að sinna bútasaum hvort sem hann er hefðbundinn eða óhefðbundinn en erftt hefur reynst að ná til þeirra.

Við skoðun má einnig glögglega sjá að meginþorri þeirra félagsmanna sem sækir fundi eða viðburði á vegum félagsins eru fyrrum stjórnarmenn og félagar sem hafa starfað fyrir félagið og hafa þessir félagsmenn skilað sínu til félagsins og sumir hverjir gott betur en það.

Framhaldsaðalfundur:

Að þessu sögðu boða ég hér með til framhaldsaðalfundar félagsins í haust, nánar tiltekið miðvikudaginn 6. september 2023 kl. 20:00. 

Fundurinn verður haldinn á Sléttunni,  Sléttuvegi 19-21.  

Allir félagsmenn sem eitthvað vilja hafa um framtíð félagins að segja, eru hvattir til að mæta.

Hér er um að ræða breytta dagsetningu frá tillögu aðalfundar sem má sjá hér neðar. Talið er nauðsynlegt að halda framhaldsaðalfund sem allra fyrst.

Hér á eftir fylgir fundargerð aðalfundar.

Aðalfundur Íslenska bútasaumsfélagsins 2023 var haldinn 22. apríl 2023 á Hótel Glym, Hvalfirði, kl. 17:00

Fundinn sátu 15 félagsmenn auk fundarstjóra. Varaformaður, Ásdís Finnsdóttir, setti fund og bauð fundarmenn velkomna.

  1. Ásdís stakk upp á fundarstjóra Svölu Stefánsdóttur og Sigrúnu Sveinbjörnsdóttur sem fundarritara og var það samþykkt.
  2. Skýrsla stjórnar. Svala las upp skýrslu stjórnar þar sem formaður félagsins var ekki á fundinum.
  3. Fundarstjóri kynnti tillögu frá stjórn félagsins til fundarins. 

Á aðalfundi síðasta árs mættu 14 félagmenn til aðalfundarstarfa, nú í dag eru 16 félagsmenn. Mæting á tvo síðustu aðalfundi er rétt um hálft prósent af félagsmönnum og óeðlilegt er að slíkur lítill minnihluti geti tekið veigamiklar ákvarðanir fyrir félagið. Í ljósi þess að aðalfundur þarf að taka erfiðar ákvarðanir varðandi framtíð félagins ef ekki koma fram framboð til stjórnar og til formanns, því leggur stjórn félagsins til eftirfarandi tillögu:

„Stjórn félagsins leggur til að aðalfundi verði frestað fram til 27. september 2023. Samfélagsmiðlar félagsins verða notaðir til að auglýsa eftir fólki til starfa í stjórn og í nefndir í sumar. Ef ekki fæst fólk til starfa eru líkur á að á framhaldsaðalfundi komi fram tillaga frá stjórn félagsins um slit á félaginu.“

Fundarstjóri bauð fundarmönnum að tjá sig um tillöguna.

Tillaga að aðalfundi verði frestað til september n.k. var borin upp til atkvæða.

Hún var samþykkt af öllum fundarmönnum.

Svala lagði til að kjörin væri kjörnefnd til að finna fólk í stjórn og nefndir. Tillaga um að kjósa í kjörnefnd, borin upp og samþykkt einróma.

  1. Svala Stefánsdóttir bauð sig fram í kjörnefnd, einnig Sigríður Paulsen og ætla þær að fá allavega einn félagsmann með sér í nefndina.
  2. Fundarstjóri sleit fundi kl. 17:20