Námskeið, aðalfundur og löng saumahelgi!

Ýmislegt á döfinni

Námskeið og fundir

Ég vil hvetja ykkur til að skrá ykkur á stórskemmtilegt námskeið með Röndu Mulford sem í boði verður í apríl. Þetta er tækifæri sem ekki kemur aftur!
Í boði er 3ja daga námskeið í myndbyggingu með efnum, „Collage quilting“ en aðferðin felst þá í því að „mála“ mynd með efnum.

Randa hélt sýningu í Listasafni Mosfellsbæjar sumarið 2019 og var henni mjög vel tekið. Svo sannarlega er Randa listamaður fram í fingurgóma enda eru verk hennar einstaklega falleg. Randa kemur alla leið frá Kaliforníu til að kenna okkur og vera með okkur á aðalfundarhelginni.

Námskeiðið verður haldið dagana 21.-23. apríl að Laugabakka. 21. apríl er sumardagurinn fyrsti og því tilvalið að njóta langrar bútasaumshelgar!

Ákveðin mótíf verða tekin fyrir og unnin á þessu námskeiði og mun Randa leiða okkur í allan sannleikann á því hvernig svona falleg verk verða til. Hámarkfjöldi þáttakenda á námskeiðið er 15 manns, og kostar námskeiðið 30.000 krónur fyrir félagsmenn ÍB og 45.000 krónur fyrir utanfélagsmann. Mörg stéttarfélög greiða niður námskeiðsgjöld fyrir félagsmenn sína svo endilega koma og vera með! Nokkur sæti laus!

Aðalfundur - saumahelgi

Aðalfundur félagsins verður haldinn að Hótel Laugabakka þann 23. apríl næstkomandi. Í tengslum við aðalfund verður boðið upp á saumahelgi (og námskeiðið hér að ofan) og í boði gisting á Hótel Laugabakka í Miðfirði.
Verð á gistingu:
Einsmanns herbergi, 12.000 krónur nóttin.
Tveggja manna herbergi16.000 krónur nóttin
Þriggja manna herbergi 20.000 krónur nóttin.
Innifalið í þessum verðum er morgunmatur.
Fyrir þau sem vilja mæta á miðvikudagskvöldinu er fyrsta nóttin með aukalegum afslætti, eða 10.000 kr nóttin fyrir einsmanns, 12.000 fyrir tveggja manna og 16.000 fyrir þriggja manna herbergi.
Í boði verður hádegisverður og kvöldverðarhlaðborð, verð kr. 6.990.- á dag.

Frestur til að bóka herbergi og skrá sig á námskeiðið er til og með 10. apríl.
Bókanir fara fram með því að senda póst á formadur@butasaumur.is og taka fram hvaða nætur gist er, stærð herbergis og ef pantað er 2ja eða 3ja manna herbergi, þurfa að koma fram nöfn allra þátttakenda. Þá þarf að taka fram matarpöntun líka!

Mars fundurinn

Félagsfundur verður haldinn á nýja fundarstaðnum okkar, Sléttuvegi 21-23 (salurinn Sléttan) þann 30. mars næstkomandi kl. 19:30.
Gestafyrirlesari verður Arnheiður Steinþórsdóttir sem ætlar að fræða okkur um sögu saumavélarinnar.

Kaffi og með því!

Skiptimarkaður – endilega koma með það sem þið viljið skipta, prútta eða pranga með og skiptið fyrir annað eins.
Ég hvet ykkur til að koma með ef þið hafið saumað pappírsblokkina (Ananasblokkina) sem dreift var á félagsfundi í október. Það er gaman að sjá hvernig til tókst.