Lög félagsins
1. grein – Heiti
Félagið heitir Íslenska bútasaumsfélagið. Heimili þess og varnarþing er í Reykjavík.
2. grein – Tilgangur
Tilgangur félagsins er að styrkja áhuga og breiða út þekkingu á bútasaumi og halda uppi samstarfi milli bútasaumsfélaga og klúbba á Íslandi, ennfremur efla samstarf og vera tengiliður við hliðstæð félög í öðrum löndum.
Hlutverk félagsins er að viðhalda þekkingu á bútasaumi með því að halda námskeið og vera með fyrirlestra. Gefa út fréttabréf og halda sýningar.
3. grein – Aðild – árgjald
Félagið er opið öllum einstaklingum, jafnt áhugamönnum sem faglærðum, sem vilja starfa í samræmi við stefnu og markmið félagsins og greiða árgjald sitt til þess. Aðalfundur ákveður hverju sinni upphæð árgjaldsins. Vanræki félagsmaður eitt ár að greiða árgjald sitt til félagsins telst hún/hann ekki lengur félagsmaður.
4. grein – Aðalfundur
Stjórnin boðar til aðalfundar fyrir 1. júní ár hvert og er hann lögmætur ef boðað er til hans með 2ja vikna fyrirvara svo sannanlegt sé. Félagsstjórn skal kjörin á aðalfundi, stjórnarmenn skulu vera kosnir til 2ja ára í senn. Þannig að annað árið er kosinn formaður, gjaldkeri, meðstjórnandi og einn varamaður og hitt árið varaformaður, ritari og einn varamaður. Stjórnarmenn geta setið mest í þrjú kjörtímabil eða sex ár.
Störf aðalfundar eru:
1. Fundarsetning, kostning fundarstjóra og fundarritara.
2. Skýrsla stjórnar um störf á liðnu ári.
3. Endurskoðaðir reikningar félagsins lagðir fram til samþykktar.
4. Tillaga um árgjald.
5. Skýrslur nefnda.
6. Lagabreytingar, enda hafi þær borist stjórn fyrir boðun aðalfundar.
7. Kosning formanns.
8. Kosning meðstjórnenda.
9. Kosning varamanna.
10. Kosning tveggja skoðunarmanna.
11. Kosning í nefndir, sýningarnefnd, ritnefnd, hetjuteppanefnd, kaffinefnd og nefnd um góðgerðarverkefni.
12. Önnur mál.
13. Lestur fundargerðar þessa aðalfundar lesin upp.
14. Fundi slitið.
Reikningsár félagsins miðast við almanaksárið. Við atkvæðagreiðslur ræður einfaldur meirihluti, nema um lagabreytingar, þá þarf tvo þriðju greiddra atkvæða. Kosningar og atkvæðagreiðslur skulu fara fram skriflega sé þess óskað. Aðeins félagar sem staðið hafa í skilum með árgjald til félagsins hafa kosningarétt eða eru kjörgengir á aðalfundi.
5. grein – Skipun stjórnar
Stjórn skipa: Formaður, ritari, gjaldkeri og tveir meðstjórnendur og tveir varamenn. Annað árið eru kosnir formaður, 2 meðstjórnendur og 1 varamaður hitt árið eru kosnir 2 meðstjórnendur og 1 varamaður. Formaður kemur fram fyrir hönd félagsins. Formaður boðar stjórnarfund þegar þurfa þykir. Formaður sér um samskipti við EQA , eða felur öðrum innan stjórnar að sjá um þau samskipti í samráði við formann. Stjórnarfundur er lögmætur ef meirihluti stjórnar er á fundi. Stjórnin skiptir með sér störfum. Gjaldkeri félagsins varðveitir og hefur eftirlit með fjárreiðum þess og sér um að bókhald sé haldið í samræmi við lög félagsins. Gjaldkeri innheimtir félagsgjöld og áritar reikninga ásamt formanni. Ritari geymir skjöl og gögn félagsins. Stjórn er heimilt að kalla félagsmenn til samstarfs ef þurfa þykir.
6. grein – Félagsfundir
Stjórnin kallar saman félagsfund þegar hún telur þess þörf. Ennfremur er skylt að kalla saman félagsfund ef minnst 10 félagar krefjast þess skriflega og greina frá fundarefni. Til félagsfundar skal boða með viku fyrirvara. Fundur er lögmætur ef hann er löglega boðaður.
7. grein – Félagsslit
Til að slíta félaginu þarf samþykki 2 aðalfunda með þremur fjóðru hluta greiddra atkvæða. Eignum félagsins skal ráðstafað til félagasamtaka sem halda utan um íslenskt handverk, eins og Heimilisiðnaðarfélags íslands. Skila skal til Þjóðskjalasafns þeim gögnum sem það tekur til varðveislu.
Þannig samþykkt á aðalfundi 24. apríl 2024
Reglugerðir
1. Siðareglur Íslenska bútasaumsfélagsins
A: Siðareglur Íslenska bútasaumsfélagsins byggjast á virðingu fyrir vinnu annarra.
B: Þegar verk eftir aðra eru notuð í viðskiptalegum tilgangi verður það að byggjast á leyfi frá viðkomandi og með tilvísun til höfundar og rétthafa.
Sé verkið birt á annan hátt (t.d. á sýningu, með endurprentun, í samkeppni eða þess háttar) ber að gefa upplýsingar um mynsturuppskrift, heimild og höfund og rétthafa, sé hann/hún til staðar.
C: Öll ljósritun skal byggjast á virðingu fyrir leyfi/banni höfundar varðandi þannig starfsemi.
Þannig samþykkt á aðalfundi 14. maí 2011